Halldór Halldórsson, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík, hefur verið ráðinn forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., sem er í eigu írska félagsins Marigot. Íslenska kalkþörungafélagið rekur kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, Ískalk, og hyggur einnig á fjárfestingu í sambærilegri verksmiðju í Súðavík, Djúpkalki, auk Deltagen; verksmiðju í Stykkishólmi sem vinna mun afurðir úr þangi og þara úr Breiðafirði. Hjá Marigot á Íslandi starfa með Halldóri í framkvæmdateymi þeir Einar Sveinn Ólafsson, nýfjárfestingastjóri Marigot, Stig Randal, framkvæmdastjóri Ískalks á Bíldudal og Øystein Mathisen, viðhaldsstjóri verksmiðjunnar.
Halldór fæddist 25. júlí 1964 í Kálfavík við Skötufjörð. Hann var í sjö ár framkvæmdastjóri Tölvíkur í Grindavík, sem rak bókhalds- og endurskoðunarþjónustu auk fasteignasölu og ráðgjafar. Hann starfaði enn fremur hjá Þorbirni í Grindavík í nokkur ár auk þess að sitja þar í bæjarstjórn frá 1994 til 1996, en það voru hans fyrstu afskipti af sveitarstjórnarmálum. Að þeim loknum tók Halldór við starfi framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga sem hann gegndi til 1998, en þá tók hann við starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar sem hann gegndi um tólf ára skeið. Halldór var borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 2014 þar til að nýloknum sveitarstjórnarkosningum þar sem hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Halldór hefur verið formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2006 og verður til landsþings sem haldið verður í haust. Sambýliskona Halldórs er Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju.
Að sögn Halldórs eru meginverkefnin fram undan að þróa frekar starfsemi Íslenska kalkþörungafélagins vegna fyrirhugaðra verkefna í Súðavík og Stykkishólmi. Þar er ekki síst um að ræða verkefni er varða skipulags- og hafnarmál í samvinnu við sveitarfélögin og aðra hlutaðeigandi aðila á báðum stöðum. Einnig er unnið að leyfismálum með opinberum stofnunum, t.d. er varðar hráefnisöflun og þar styttist í að gerð umhverfismats fyrir Ísafjarðardjúp ljúki.
Halldór er stúdent frá Verslunarskóla Íslands og hefur lokið prófi í viðskiptafræði MBA frá Háskóla Íslands auk MS gráðu í mannauðsstjórnun. Þá hefur Halldór lokið fjölmörgum námskeiðum, m.a. sem löggiltur fasteigna- og skipasali, námskeiðum í stjórnun og stjórnsýslu frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og fjölda námskeiða í skattarétti og tengdum greinum svo nokkuð sé nefnt.
Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri Súðavíkurhrepps skrifaði áhugaverða grein á Vísi.is 13. mars þar sem hann fjallar um uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni og þá sérstaklega þau áform sveitarfélagsins að reisa kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði sem hafist var handa við undirbúning á 2014 og raunar fyrr enda þótt lítið sem ekkert hafi gerst síðan þá þótt miklum fjármunum hafi verið varið til verkefnisins. Allt strandi á stjórnsýslustofnunum.
Í frétt Bæjarins besta þann 17. mars, segir að sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hafi lagt á það ríka áherslu á fundi sínum föstudaginn 13. mars að stjórnvöld hraði því að afgreiða skipulagsmál og leyfavinnu vegna kalkþörungaverksmiðjunnar í Álftafirði.
Í drögum að samgönguáætlun til 2024 er m.a. gert ráð fyrir að verja 273 milljónum króna til gerðar 80 metra langs stálþils vegna nýs viðlegukants á iðnaðarsvæðinu við Langeyri í Súðavík sem ljúka á 2022.