Til baka
February 12, 2019

Nýr rafstrengur mun lækka raforkukostnað í Súðavík

Nýlega var fjallað um raforkukostnað íbúa í Súðavík í Ríkissjónvarpinu þar sem fram kom að fjölskylda sem rætt var við greiddi um 10 þúsund krónum meira á mánuði fyrir hita og rafmagn en þau hjónin hefðu gert fyrir sunnan þar sem þau bjuggu áður en þau fluttu vestur. Málið leiðir hugann að viðtali sem fréttastofa RÚV átti í nóvember við sveitarstjóra Súðavíkurhrepps um fyrirhugaða verksmiðju Íslenska kalkþörungafélagsins sem reist verður á næstu misserum á iðnaðarsvæðinu á Langeyri, innan við þorpið.

Aðveituastöð færir íbúum þéttbýlisgjald

Í viðtalinu sagði sveitarstjórinn meðal annars um raforkumálin: „Svona verkefni fylgir innviðauppbygging eins og í þessu tilfelli raforkustrengur sem kemur til Súðavíkur,“ ... „Þá eigum við von á því að þurfa ekki lengur að borga dreifbýlisgjald heldur þéttbýlisgjald sem skiptir okkur miklu máli.“ Skýringin er að verksmiðjan þarf á meiri raforku að halda en nú er hægt að útvega á svæðinu. Til að mæta þörfinni eru uppi hugmyndir um að leggja nýjan raforkustreng frá aðveitustöð Orkubús Vestfjarða á Ísafirði til Súðavíkur þar sem reist verður ný aðveitustöð þaðan sem raforku verður deilt til notenda. Ljóst er að með tilkomu aðveitustöðvarinnar munu íbúar og atvinnufyrirtæki á staðnum sjálfkrafa færast af dreifbýlisgjaldi yfir á þéttbýlisgjald sem mun lækka raforkukostnaðinn í þorpinu.

Lækkun raforkukostnaðar

Samkvæmt skýrslu sem Byggðastofnun hefur tekið saman má búast við að heildarsparnaður vegna 140 fermetra einbýlishúss gæti numið um 34 þúsundum á ári eða á milli níu og tíu prósenta við að færast af dreifbýlisgjaldskrá yfir á þéttbýlisgjaldskrá hjá Orkubúi Vestfjarða.  Sparnaður fyrirtækja gæti hinsvegar orðið um 18% á ársgrundvelli við það að færast yfir á þéttbýlisgjaldskrá skv. upplýsingum frá Orkubúinu.

Flækjustig á markaðnum

Flækjustigin eru all nokkur á raforkumarkaðnum. Til dæmis er söluverð raforku á frjálsum samkeppnismarkaði en dreifing og flutningur ekki, heldur fer gjaldskrá eftir staðsetningu á landinu þar sem hver dreifiveita hefur sérleyfi á sínu svæði. Þá er raforka til hitunar heimila greidd niður af ríkinu í bæði þéttbýli og dreifbýli sem nemur öllum kostnaði við flutning og dreifingu. Til viðbótar er önnur raforka í dreifbýli greidd niður með ákveðnu dreifbýlisframlagi. Einnig má nefna að virðisaukaskattur er mismunandi á raforku eftir því hvort hún fer til húshitunar eða annarra nota.

Núverandi flutningslínur raforku til Súðavíkur liggja um Rauðkoll.
(MYND: Orkubú Vestfjarða)

Viljayfirlýsing um kaup á raforku

Marigot, móðurfélag Djúpkalks, hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta mega­vött­um af raf­orku í tengsl­um við fyr­ir­hugaða kalkþör­unga­verk­smiðju Marigot í Súðavík.

LESA MEIRA

Hugmyndin kynnt íbúum

Frummatsskýrsla að kalkþörungaverksmiðju á Súðavík var kynnt íbúum Súðavíkurhrepps á fundi í október á síðasta ári. Að fengnum fjölda ábendinga umsagnar- og hagsmunaaðila hefur verið unnið að frekari þróun verkefnisins fyrir næstu útgáfu skýrslunnar sem kynnt verður innan tíðar.

LESA MEIRA

Halldór Halldórsson fer fyrir Íslenska kalkþörungafélaginu á Íslandi

Halldór Halldórsson, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík, hefur verið ráðinn forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., sem er í eigu írska félagsins Marigot. Íslenska kalkþörungafélagið rekur kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, Ískalk, og hyggur einnig á fjárfestingu í sambærilegri verksmiðju í Súðavík, Djúpkalki, auk Deltagen; verksmiðju í Stykkishólmi sem vinna mun afurðir úr þangi og þara úr Breiðafirði.

LESA MEIRA