Marigot, móðurfélag Djúpkalks, undirritaði í janúar viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta megavöttum af raforku af Vesturverki í tengslum við fyrirhugaða kalkþörungaverksmiðju Marigot í Súðavík. Yfirlýsingin er háð því skilyrði að af Hvalárvirkjun verði. Búist er við að Djúpkalk skapi hátt í 30 störf þegar fullum afköstum hefur verið náð.
Marigot á Írlandi er eigandi Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal við Arnarfjörð. Fyrirtækið ráðgerir að reisa verksmiðju í Súðavík sem vinna mun kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi og er áætlað að gangsetja verksmiðjuna árið 2020.
Viljayfirlýsingin lýtur að því að fyrirtækið kaupi raforku til verksmiðjunnar af Vesturverki í framhaldi af mögulegri uppbyggingu Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum. Þegar verksmiðjan hefur náð fullum afköstum verður aflþörf hennar átta megavött.
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að endanlegt samningsverð muni m.a. ákvarðast af kostnaðarverði framleiddrar orku í Hvalárvirkjun og verður það í samhengi við markaðsaðstæður á þeim tíma sem verksmiðjan tekur til starfa, að því gefnu að uppbygging Hvalárvirkjunar verði tryggð. Gildistími samnings verður 10 ár frá gangsetningu verksmiðjunnar.
Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri Súðavíkurhrepps skrifaði áhugaverða grein á Vísi.is 13. mars þar sem hann fjallar um uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni og þá sérstaklega þau áform sveitarfélagsins að reisa kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði sem hafist var handa við undirbúning á 2014 og raunar fyrr enda þótt lítið sem ekkert hafi gerst síðan þá þótt miklum fjármunum hafi verið varið til verkefnisins. Allt strandi á stjórnsýslustofnunum.
Í frétt Bæjarins besta þann 17. mars, segir að sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hafi lagt á það ríka áherslu á fundi sínum föstudaginn 13. mars að stjórnvöld hraði því að afgreiða skipulagsmál og leyfavinnu vegna kalkþörungaverksmiðjunnar í Álftafirði.
Í drögum að samgönguáætlun til 2024 er m.a. gert ráð fyrir að verja 273 milljónum króna til gerðar 80 metra langs stálþils vegna nýs viðlegukants á iðnaðarsvæðinu við Langeyri í Súðavík sem ljúka á 2022.