Til baka
November 8, 2018

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps samþykkir kalkþörungaverksmiðju í krika Langeyrar

Á fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps 14. september sl. voru meðal annara mála ræddir nokkrir mismunandi valkostir fyrir ákjósanlega staðsetningu kalkþörungaverksmiðju innan við Langeyri við Álftafjörð, með vinnslu þörunga úr Ísafjarðardjúpi í huga. Langeyri er skipulagt iðnaðarsvæði í heppilegri fjarlægð frá þorpskjarnanum. Á fundinum var samþykkt samhljóða að vinna verkefnið áfram í bæði aðalskipulags- og deiliskipulagsvinnu í samræmi við mismunandi valkostagreiningar sem Vegagerðin vann fyrir sveitarfélagið.

Kriki Langeyrar hagkvæmastur

Umrædda valkosti hefur Vegagerðin þegar greint og kostnaðarmetið með tilliti til hafnargerðar. Samkvæmt samantekt á kostum og göllum staðsetninganna er sá kostur talinn langhagkvæmastur sem gerir ráð fyrir starfseminni í krika Langeyrar og nær frá Þórðarsteinum að Helluvík. Það á við hvort sem litið er til framkvæmdatíma eða kostnaðarhlutdeildar sveitarfélagsins í verkefninu. Samkvæmt mati Vegagerðarinnar gerir staðsetningin ráð fyrir eins til tveggja ára framkvæmdatíma og 464 milljóna króna heildarkostnaði við framkvæmdina. Af heildarfjárhæðinni er metið að kostnaður sveitarfélagsins verði um 233 milljónir eða 50,2% af heildarkostnaði að meðtöldum virðisaukaskatti.

Einn kostanna ekki í landi sveitarfélagsins

Kostnaður við aðrar staðsetningar er í öllum tilfellum hærri auk þess sem sumir kostir myndu hafa í för með sér mun lengri framkvæmdatíma, ekki síst sá sem gerir ráð fyrir staðsetningu utan hins skipulagða iðnaðarsvæðis sem Langeyri er. Rétt er að taka sérstaklega fram að allir kostirnir eru innan marka hljóð- og rykmengunar eins og greint var frá á íbúafundi í október 2017 um niðurstöðu frummatsskýrslunnar.

Unnið markvisst að atvinnuuppbyggingu

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að styrkja atvinnustig í sveitarfélaginu, m.a. með undirritun viljayfirlýsingar við Íslenska kalkþörungafélagið þess efnis að koma á vinnslu kalkþörunga í Álftafirði og gerð skýrslna um arðsemi og ávinning af slíku verkefni. Niðurstaða sveitarstjórnar um heppilegustu staðsetningu verksmiðjunnar byggir á fyrirliggjndi vinnu, ítarlegum gögnum og vettvangsferðum, m.a. til Bíldudals.


Sjá frétt Ríkissjónvarpsins að kvöldi túnda nóvember og veffrétt RÚV sama dag.

Viljayfirlýsing um kaup á raforku

Marigot, móðurfélag Djúpkalks, hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta mega­vött­um af raf­orku í tengsl­um við fyr­ir­hugaða kalkþör­unga­verk­smiðju Marigot í Súðavík.

LESA MEIRA

Hugmyndin kynnt íbúum

Frummatsskýrsla að kalkþörungaverksmiðju á Súðavík var kynnt íbúum Súðavíkurhrepps á fundi í október á síðasta ári. Að fengnum fjölda ábendinga umsagnar- og hagsmunaaðila hefur verið unnið að frekari þróun verkefnisins fyrir næstu útgáfu skýrslunnar sem kynnt verður innan tíðar.

LESA MEIRA

Halldór Halldórsson fer fyrir Íslenska kalkþörungafélaginu á Íslandi

Halldór Halldórsson, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík, hefur verið ráðinn forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., sem er í eigu írska félagsins Marigot. Íslenska kalkþörungafélagið rekur kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, Ískalk, og hyggur einnig á fjárfestingu í sambærilegri verksmiðju í Súðavík, Djúpkalki, auk Deltagen; verksmiðju í Stykkishólmi sem vinna mun afurðir úr þangi og þara úr Breiðafirði.

LESA MEIRA